Hjónin Sverrir Magnússon og Ingibjörg Sigurjónsdóttir stofnuðu safnið með gjöf til Hafnarfjarðarbæjar árið 1983, árið 1990 færði Eiríkur Smith því veglega listaverkagjöf og einnig hafa Elías B. Halldórsson og Gunnar Hjaltason gefið safninu fjölda grafíklistaverka sinna.

Fleiri listamenn og einstaklingar hafa fært safninu listaverk að gjöf en einnig eru keypt listaverk í samræmi við söfnunarstefnu, eftir því sem fjárveitingar leyfa. Reglulega eru haldnar sýningar á verkum úr safneigninni.

Ný aðföng

Hafnarborg kaupir reglulega ný verk í samræmi við söfnunarstefnu Hafnarborgar og heldur sýningar á verkum úr safneigninni. Forstöðumaður gerir yfirleitt tillögur um kaup, oft í tengslum við sýningar, þar sem mikilvægt er að safneignin endurspegli sýningarstefnu safnsins.

Safnið nýtur mikillar velvildar og fær reglulega tilboð um góðar gjafir. Allar tillögur um kaup og gjafir eru lagðar fyrir listaráð Hafnarborgar til samþykktar, en ekki er tekið við gjöfum sem fylgja einhverjar kvaðir.

Stofngjöf

Grunnurinn að safneigninni var lagður með rausnarlegri gjöf stofnenda safnsins, þeirra Sverris Magnússonar og Ingibjargar Sigurjónsdóttur, sem færðu Hafnarfjarðarbæ listaverkaeign sína árið 1983. Stofngjöfin innihélt tæplega 200 verk, þar á meðal verk eftir frumkvöðla íslenskrar myndlistar á borð við Kjarval, Nínu Tryggvadóttur, Jóhann Briem og Júlíönu Sveinsdóttur.

Á langri ævi höfum við eignast eina og eina bók, eina og eina mynd. Áður en varir er kominn vísir að safni. Smám saman verða þessi verðmæti hluti af lífi manns og tilveru og maður sér þau ógjarnan tvístrast eða jafnvel verða uppboðum að bráð.
– Sverrir Magnússon, Fjarðarfréttir, 1988

Sverrir byrjaði að safna myndlist á kreppuárunum um 1930, þegar hann eignaðist vatnslitamynd eftir Ólaf Túbals. Listaverkasafnið óx síðan jafnt og þétt eftir því sem Sverrir varð duglegri við að sækja og fylgjast með myndlistarsýningum. Í safninu má finna mikið af hefðbundnum landslagsmyndum, bæjarmyndum frá Hafnarfirði og kyrralífsmyndum, sem endurspegla borgaralegan smekk þess tíma.