Hlutverk Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar, er að standa fyrir öflugu og metnaðarfullu menningarstarfi á sviði myndlistar og tónlistar með sérstaka áherslu á strauma og stefnur samtímans.

Hafnarborg varðveitir listaverkaeign Hafnarfjarðarbæjar og stendur fyrir rannsóknum og sýningum á henni, svo að fólk fái að njóta verkanna og að þau verði sýnilegur hluti íslenskrar menningar- og listasögu. Hafnarborg rekur líka alþjóðlega gestavinnustofu fyrir listamenn víðs vegar að úr heiminum. Allt er þetta gert til að stuðla að skemmtilegu, skapandi og fjölbreyttu mannlífi í Hafnarfirði.
Hafnarborg starfar samkvæmt eigin stofnskrá og stefnu, menningarstefnu Hafnarfjarðarbæjar, íslenskum safnalögum og siðareglum Alþjóðaráðs safna.
